Útmá

Athugasemd á það hvernig móðurhlutverkið heltekur persónuna, hvernig mörk þurrkast út smátt og smátt, dag eftir dag tapast lítil barátta um persónuleg mörk og hið óhugsanlega verður venjulegt. Hvernig líkamsvessar einnar manneskju á persónulegum stöðum annarar verða að einhverju dýrmætu og elskuðu. Hvernig þessari baráttu er tapað án viðnáms og í sátt við þær málamiðlanir sem tapið færir yfir á persónuna.
Blíð snerting barnanna þegar þau bera litinn á konuna er nautnafull og jaðrar við það að vera erótísk í sekúndubrot en það er svo aftengt jafn hraðan með sakleysi barnanna og þessum hvíta lit. Samlífi þessara vera, hvernig börnin koma frá líkamanum gerir þessa snertingu leyfilega og náttúrulega. Þá vekur mótstöðuleysi konunnar upp hugrenningartengsl við það viðtekna viðhorf í samfélaginu að það sé ekki leyfilegt að sjá eftir því að vera móðir, að vilja ekki eiga börnin sem hún á. Að mega ekki lýsa yfir gremju með þá þætti móðurhlutverksins sem heltaka persónuna og gefa henni ekki pláss til þess að vera hún sjálf og eiga ekki lengur sitt líf ein og sjálf og hvernig hún getur bæði elskað börnin sín og verið sjálfstæð persóna sem notar sinn tíma fyrir sig.
Það er líka hægt að lesa í mótstöðuleysi konunnar að hún njóti þess, framkoma milli barnanna og konunnar og hvíti liturinn vekja hugrenningar til móðurmjólkurinnar og hvernig börnin og konan verða eitt frekar en að hún sé afmáð af börnunum.
Hvíti liturinn vísar í þessa útmáningu sem verður á persónunni, hreinleikann og heilagleikann, styttu á stalli eða jafnvel trúarlega hluti. Ásýndin á móðurina sem fjall í samfélaginu, staðföst, klassísk sýn á madonnuna eða jafnvel frjósemistákn. Þetta færir verkið inn í heim háklassískra lista, móðirin madonnan eða frjósemistáknið gæti verið steypt í brons eða jafnvel hoggið í marmara.

Video
3 mín 37 sek
2017