Sængurkonusteinn

Sagan af Sængurkonusteini var rituð í Huld I (1890) af Brynjúlfi Njálssyni, en þar segir af förukonu sem kom að Fjalli í Ölfusi og baðst gistingar. Hjónin á bænum voru auðug en hörð og nísk og úthýstu henni, en auðséð var að hún myndi innan skamms ala barn. Sagan segir að förukonan hafi í slæmu veðri ekki komist nema að steininum sem stendur skammt frá bænum og alið barnið. Konan og barnið hafi fundist þar lifandi um morguninn en sömu nótt hafi fallið skriða á bæinn og tekið hann allan og heimilisfólkið með.
Önnur útgáfa af sögunni hefur þó verið til í sveitinni.
Í frásögn Sigurðar Þórðarsonar, Halldóru Hinriksdóttur og Hinriks Þórðarsonar sem finna má á vefnum Ísmús segir að þegar konan kemur á bæinn er heimilisfólk í kirkju og var henni vísað frá þar sem að þess tíma sið hafi enginn mátt bjóða fólki inn í bæinn nema húsbóndinn gæfi til þess leyfi. Hún elur barnið undir steininum, sveipar það öllum sínum dulum og bjargar með því lífi þess en lætur sjálf lífið. Barnið hafi verið tekið inn á bæinn Helli í Ölfusi og verið alið þar upp. Hún hafi heitið Margrét.

Sængurkonusteinn
Silkiprent á hör, hör þráður, vír og vídeó
135 x 140 x 170 cm
2019